Þjónusta

Mat og greining á sértækum námsörðugleikum, svo sem í lestri (lesblinda/dyslexia) og stærðfræði (stærðfræðiblinda/dyscalculia)

Ég býð upp á taugasálfræðilegt mat fyrir börn, unglinga og fullorðna, þar sem ég legg fyrir greindarpróf og fleiri taugasálfræðileg próf, kortlegg styrkleika og veikleika í þroskamynstri og athuga lestur, skrift, stafsetningu og stærðfræði með tilliti til sértækra námsörðugleika. Einnig er ég með spurningalista um athygli, einbeitingu og úthald, aðlögun og líðan.

Ef óskað er eftir, legg ég fyrir ADHD skimunarlista og ræði líkur þess hvort um athyglisbrest eða ofvirkni sé að ræða og hvað sé til ráða til að draga úr slíkum einkennum.

Prófunin tekur tvö skipti, upp undir 90 mínútur í senn. Síðan er viðtal um niðurstöður og ráðgjöf, oft um 90 mínútur.

Greining á sértækum námsörðugleikum byggir á alþjóðlegum greiningarviðmiðum ICD-10 og DSM-IV. Hugað er að fylgikvillum og mismunagreiningu. Vísað er til annarra sérfræðinga eftir þörfum.

Eftir skilaviðtal skrifa ég skýrslu um niðurstöður og ráðgjöf og sendi viðkomandi eða foreldrum, þegar um barn er að ræða. Skýrsluna er t.d. hægt að nota í samskiptum við skóla. Einnig skrifa ég vottorð á Hljóðbókasafn og vottorð á ensku eftir þörfum.

Yfirleitt er ekki meira en 1-2 vikna bið eftir athugun. Tímarnir eru yfirleitt eftir hádegi á virkum dögum. Sálfræðistofan er í Hamraborg 10, 3. hæð, í miðbæ Kópavogs, gengið inn sunnan megin við hliðina á innganginum í kaffihúsið Te og kaffi.

 

 

Taugasálfræðilegt mat vegna heilahristings, heilaáverka eða sjúkdóma sem tengjast heila og miðtaugakerfi

Ég býð upp á ýtarlegt taugasálfræðilegt mat fyrir börn, unglinga og fullorðna, sem takast á við afleiðingar áverka á höfði eða heila eða  sjúkdóma í heila eða miðtaugakerfi.

Farið er yfir forsögu hvað snertir slys, áfall eða sjúkdóm, fyrri skýrslur skoðaðar og rætt við viðkomandi og aðstandendur um afleiðingar og stöðu mála. M.a. er rætt er um hugræn einkenni og atferli, aðlögun og líðan.

Lagður er fyrir fjöldi prófa og verkefna í þeim tilgangi að kortleggja taugasálfræðilega styrkleika og veikleika, m.a. hvað snertir minnisþætti og einbeitingu og skipulag, úthald og hraða í hugarstarfi og vinnubrögðum.

Prófunin tekur tvö skipti, upp undir tvo klukkutíma í senn.

Skrifuð er ýtarleg skýrsla um forsögu, lýsingu á afleiðingum og niðurstöður taugasálfræðilegra prófa og verkefna.

Lagt er mat á líkur þess hvort taugasálfræðilegir veikleikar einstaklingsins séu meðfæddir eða ákomnir, þ.e. afleiðing áverka, áfalls eða sjúkdóms.

Boðið er upp á skilaviðtal þar sem farið er yfir niðurstöður og ráðgjöf veitt um frekari læknisfræðilegar rannsóknir, meðferð og endurhæfingu og vísað til annarra sérfræðinga eins og við á.